Samkeppnisráð hefur heimilað sameiningu Fréttar ehf. og Norðurljósa hf. í ljósi þess að Skífan ehf. hefur verið seld út úr Norðurljósasamstæðunni til ótengds aðila. Samkeppnisráð setur einnig ákveðin skilyrði fyrir samruna verslunarsviðs Tæknivals við Skífuna.

Samkeppnisráð komst að þeirri niðurstöðu að samruninn, eins og hann var ákveðinn af samrunaaðilum, leiddi til þess að Baugur Group hf. og Eignarhaldsfélagið Fengur hf./Fons eignarhaldsfélag hf. ásamt tengdum aðilum öðluðust yfirráð í Norðurljósum. Þá myndi samruninn leiða til markaðsráðandi stöðu félaga undir yfirráðum Baugs og Fengs/Fons á heildsölu- og smásölumarkaði hljómdiska, mynddiska og tölvuleikja, eða að slík staða styrktist. Samruninn myndi draga úr samkeppni á þessum mörkuðum og væri hann því andstæður markmiði samkeppnislaga og hagsmunum neytenda. Í frumathugun Samkeppnisstofnunar, sem málsaðilum var kynnt þann 13. maí sl., var komist að sömu niðurstöðu.

Í frétt Samkeppnisráðs um ákvörðunina kemur fram að snemma í þessum mánuði skýrðu samrunaaðilar samkeppnisyfirvöldum frá því að þann 28. maí sl. hafi ótengdur aðili gert bindandi kauptilboð í allt hlutafé í Skífunni og hefði það verið samþykkt. Eftir það fóru fram viðræður milli samrunaaðila, nýrra kaupenda Skífunnar og samkeppnisyfirvalda um skilyrði fyrir samruna verslunarsviðs Tæknivals við Skífuna. Hafa þær leitt til þeirrar niðurstöðu að samkeppnisráð hefur í ákvörðun sinni sett samrunanum skilyrði. Með sölu Skífunnar til ótengds aðila og að uppfylltum fyrrnefndum skilyrðum telur samkeppnisráð að skaðlegum áhrifum samrunans á samkeppni verði eytt.

Í úrskurðinum kemur fram að með samningum í lok janúar fóru fram viðskipti sem m.a. leiddu til þess að Baugur og tengd félög ásamt Fons og tengdum félögum öðluðust sameiginlega ráðandi hlut í Norðurljósum hf. Í viðskiptunum fólst einnig að verslunarrekstur Tæknivals, m.a. rekstur verslana BT, var sameinaður Skífunni. Þá var það hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu Norðurljósa að félagið keypti allt hlutafé í Frétt ehf., sem m.a. gefur út Fréttablaðið og DV. Í kjölfar þessara breytinga urðu dótturfélög Norðurljósa þrjú: Íslenska útvarpsfélagið hf., Frétt ehf. og Skífan ehf. Samningar þessir fela í sér samruna í skilningi samkeppnislaga.

Hvað varðar samruna Fréttar við Norðurljós bendir samkeppnisráð á að Íslenska útvarpsfélagið og Frétt starfa á ólíkum samkeppnismörkuðum fjölmiðlunar, þ.e. annars vegar útvarps- og sjónvarpsrekstur og hins vegar útgáfu dagblaða. Er afleiðing samrunans að þessu leyti því hvorki sú að saman renni raunverulegir eða hugsanlegir keppinautar (láréttur samruni) né tengsl í þeim skilningi að annar þessara aðila framleiði vörur eða þjónustu sem hinn notar í starfsemi sinni (lóðréttur samruni). Þótt slíkur samruni sé alla jafna ekki talinn hafa skaðleg áhrif á samkeppni, bendir samkeppnisráð þó á að í undantekningartilvikum hafi verið talið að um neikvæð samkeppnisáhrif gæti verið að ræða, svonefnd samsteypuáhrif, þar sem öflugt fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu á einhverjum markaði (mörkuðum) nýtir sér stöðu sína til þess að ná sterkri stöðu á öðrum markaði. Eins og nánar er útskýrt í ákvörðuninni telur samkeppnisráð hins vegar að ekki sé ástæða til íhlutunar vegna hugsanlegra samsteypuáhrifa í þessu máli.

Samkeppnisráð telur að þeir markaðir sem samruninn hefur einkum áhrif á séu heildsölu- og smásölumarkaðir hér á landi fyrir tónlist á geisladiskum, mynddiska (DVD myndir) og tölvuleiki. Áður en til samrunans kom hafði Skífan yfirburðastöðu á viðkomandi heildsölumörkuðum, en breyting vegna samrunans varð tiltölulega lítil á því sviði. Áhrif samrunans koma fyrst og fremst fram á smásölustigi, en þau lýsa sér annars vegar í því að markaðshlutdeild Skífunnar, sem var veruleg fyrir, styrkist með yfirtöku á verslunum BT. Hins vegar felast áhrifin í því að Baugur Group og Fengur/Fons öðlast sameiginleg yfirráð yfir Skífunni, en Baugur fer með yfirráð í Högum (sem reka m.a. Hagkaups- og Bónusverslanir). Verslanir Haga voru áður einn helsti keppinautur Skífunnar á smásölumörkuðum. Samruninn, eins og hann var upphaflega ákveðinn og tilkynntur af samrunaaðilum, hefði því leitt til þess að tveir helstu keppinautar á smásölumörkuðum afþreyingarvöru, þar sem veruleg samþjöppun var fyrir, yrðu undir yfirráðum sömu félaga og yrði að líta á þá sem einn aðila. Samruninn hefði því að óbreyttu haft í för með sér óviðunandi samþjöppun á markaðnum og röskun á samkeppni til tjóns fyrir neytendur.

Salan á Skífunni til ótengds aðila hefur umtalsverð áhrif á mat samkeppnisráðs á samkeppnislegum áhrifum samrunans og er, ásamt þeim skilyrðum sem samkeppnisráð setti, forsenda þess að unnt er að fallast á samrunann. Með sölunni er verulega dregið úr markaðshlutdeild samrunaaðila og það forskot sem Skífan óhjákvæmilega naut vegna tengsla við hljóðvarps- og sjónvarpsrekstur Norðurljósa er ekki lengur fyrir hendi.