Raungengi krónunnar, sem er mælikvarði á samkeppnisstöðu innlendra atvinnuvega út á við, er enn sögulega lágt og samkeppnisstaðan góð samkvæmt því. Verðbólga fer víða vaxandi á sama tíma og það dregur úr henni hér á landi og er hún nú svipuð og í helstu viðskiptalöndum.

Því má búast við að samkeppnisstaðan verði áfram góð nema til komi veruleg styrking krónunnar, en það verður að teljast harla ólíklegt á næstunni.

Þetta segir í Vikulegum markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa.

„Gengi krónunnar styrktist óverulega í vikunni og lækkaði gengisvísitalan um 0,13% og endaði í 213,55 stigum. Hefur krónan veikst nokkuð frá áramótum og er vísitalan nú 2,65% hærri en í lok síðasta árs.

Af helstu myntum hefur evra hækkað í verði um 3,24%, sterlingspund um 2,85%, bandaríkjadalur um 0,46%, en japanskt jen hefur hinsvegar lækkað í verði um 1,12%.“