Forstjóri skandinavíska flugfélagsins SAS, Jørgen Lindegaard, segir í samtali við danska blaðið Børsen að félagið muni fara í samkeppnisstríð við Sterling ef lággjaldaflugélagið verður tekið yfir af FL Group.

"Við munum ekki slaka á," sagði Lindegaard. "Það má ímynda sér að við bjóðum upp á flugferðir aðra leiðina til Norður-Ameríku. Við erum að kanna þann möguleika."

Talað hefur verið um að Sterling hefji flug frá Danmörku til Bandaríkjanna.

FL Group hefur átt í yfirtökuviðræðum við eigendur Sterling og segja heimildamenn Viðskiptablaðsins að þeim verði haldið áfram í næstu viku.