Samkeppnisyfirvöld í Bandaríkjunum (FTC) hafa aukið við rannsókn á yfirtökuboði samheitalyfjafyrirtækisins Barr Pharmaceuticals í króatíska lyfjafyrirtækið Pliva, segir í frétt Dow Jones.

Barr og Pliva selja og vinna að rannsóknum að samskonar lyfjum og er FTC að rannsaka hvort sameinað fyrirtækið muni eignast of stóra markaðshlutdeild í einstökum lyfjategundum.

Talsmenn Barr vænta þess að yfirtakan standist skilyrði samkeppnisyfirvalda, en gera þó ráð fyrir þeim möguleika að FTC skyldi fyrirtækið til að láta af sölu á einstökum lyfjum, sagði Carol Cox, talsmaður Barr. Hún bætti við að ekki þyrfti samþykki FTC til að fullgilda kaupsamning.

Formlegt tilboð Barr í Pliva hljóðar upp á um 162 milljarða króna, sem er litlu hærra en óformlegt boð íslenska samheitalyfjafyrirtækisins Actavis Group sem keppt hefur við Barr um Pliva.

Framkvæmdarstjóri Barr, Bruce Downey, sagði í gær að FTC hafi í annað sinn beðið um upplýsingar frá Barr, en Downey segir að Barr muni vinna með FTC við úrlausn málsins.

"Viðræður okkar við FTC hafa þróast á þann veg að við erum nokkuð viss um að við getum samið um úrlausn málsins á farsælan og skjótan hátt. Við gætum þurft að selja einhver vörumerki," sagði Downey, en vildi þó ekki gefa upp hver þau væru