Bandaríkjamenn hafa varið samtals 435 milljörðum dala í netverslun í ár, samkvæmt skýrslu Adobe um stafræna hagkerfið. Greiningaraðilar telja að neytendur hafi eytt nálægt 93,9 milljörðum dollara meira á netinu sökum samkomubanna.

Miðað við núverandi þróun verða kaup í gegnum netverslun á árinu orðin meiri í byrjun október heldur en á öllu síðasta ári, þrátt fyrir að svartur föstudagur, stafrænn mánudagur (e. Cyber Monday), og jólin væru ekki liðin.

„Við höfum í raun þjálfað neytendur að versla með öðrum máta,“ hefur Financial Times eftir Sonia Lapinsky, hjá smásöluráðgjafafyrirtækinu Alix Partners. „Þeim líður núna vel heima hjá sér. Þeir eru orðnir vanir að kaupa hluti án þess að fara út úr húsi,“ bætir hún við.

Það voru þó merki um að sumir bandarískir neytendur vilji snúa aftur í fyrri venjur. Metvöxtur í netverslun var í hverjum mánuði  en vöxturinn var um 55% í júlí milli ára, samanborið við meira en 70% í maí og júní. Aukningin í netverslun var minni í fylkjum sem höfðu dregið úr samkomutakmörkunum.