Þingmaður norska Miðflokksins segir að fríverslunarsamningur Breta við Evrópusambandið verði betri en EES samningur EFTA við sambandið og því ætti Noregur að fara að skoða valkosti við aðildina að efnahagssvæðinu.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á aðfangadag náðu Bretar, sem hafa verið í útgönguferli út úr sameiginlega markaðnum síðasta árið eftir að hafa formlega gengið úr ESB 31. janúar síðastliðinn, loks samkomulagi um áframhaldandi viðskiptasamband landsins við sameiginlega markaðinn.

Aðgangurinn að sameiginlega markaðnum átti að renna út nú um áramótin en með gildistöku nýja samkomulagsins verður áfram fríverslun milli Bretlands og EES svæðisins, án þess að Bretar þurfi, líkt og Noregur, Ísland og Liechtenstein, að taka upp fjölda reglugerða frá ESB.

Lögfræðingurinn og þingmaðurinn Marit Arnstad, fyrrum samgönguráðherra í ríkisstjórn Miðflokksins fyrr á áratugnum, segir að með samkomulaginu sjáist að hægt sé að viðhalda verslun við ESB á annan hátt en felst í EES samkomulaginu.

„Þeir fá aðgang að innri markaðnum og sameiginlegri verslun, sem er eftirsóknarvert, en þeir þurfa ekki að vera með í samræmdu reglugerðarumhverfi sem setur einstökum löndum þröngar skorður í eigin stefnumótun,“ sagði Arndstad.

Heming Olaussen, sem stýrir EES nefnd Sósíalíska vinstriflokksins tók í sama streng, ásamt því að benda á þá niðurstöðu í samkomulaginu að Bretar losna undan valdi Evrópudómstólsins. Brexit samkomulagið „tryggir sjálfstjórn þjóða á betri hátt en EES samkomulagið gerir fyrir okkur,“ segir Olaussen að því er fram kemur í frétt Express í Bretlandi.

Miðflokkurinn, sem er systurflokkur Framsóknarflokksins hér á landi, hefur mælst stærsti flokkur landsins í skoðanakönnunum undanfarin misseri en hann hefur löngum verið skeptískur á ESB og EES samkomulagið.

Hægriflokkurinn, sem leiðir ríkisstjórn með Framfaraflokknum, ásamt aðalkeppinautnum, Verkamannaflokknum, hafa hins vegar löngum verið hlynntir nánara Evrópusamstarfi.