Norðurál, dótturfélag Century Aluminum, Hitaveita Suðurnesja hf og Orkuveita Reykjavíkur undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um raforkusölu til fyrirhugaðs álvers Norðurál í Helguvík á Suðurnesjum.

Samkvæmt samkomulaginu er fyrsti áfangi álversins allt að 150 þúsund tonn og mun Hitaveita Suðurnesja sjá um að útvega allt að 150 MW, en Orkuveita Reykjavíkur allt að 100 MW. Stefnt er að afhendingu orku fyrir fyrsta áfangann árið 2010. Í viljayfirlýsingunni er gert ráð fyrir allt að 250.000 tonna afkastagetu og munu orkuframleiðendurnir reyna að útvega allt að 435 MW þegar fram líða stundir.

Samkvæmt Árna Sigfússyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, hefur með undirritun samkomulagsins í dag, einni helstu hindrun álversins verið rutt úr vegi. Logan W. Kruger, forstjóri Century Aluminum tók í sama streng og Árni og sagði samkomulagið vera stórt skref í framgangi áætlana fyrirtækisins varðandi Helguvík.

Árformað er að undirbúningsframkvæmdir geti hafist þegar á næsta ári ef allt gengur samkvæmt áætlun en sennilegt er að sjálf bygging álversins hefjist árið 2008. Umfang þessarar fjárfestingar verður að okkar mati á bilinu 35 - 40 milljarðar miðað við núverandi gengi krónunnar og sé tekið tillit orkuframkvæmda er líklegt að hér sé um allt að 70 milljarða fjárfestingu að ræða (um 7% af VLF 2005) eins og bent er á í Vegvísi Landsbankans.

"Þar sem þessar framkvæmdir dreifast yfir nokkuð langan tíma og eru ekki mjög umfangsmiklar í samanburði við þá stóriðjuuppbygginu sem nú á sér stað er ólíklegt að þjóðhagslegu jafnvægi sé ógnað þótt svo að þessar áætlanir gangi eftir. Þvert á móti er sennilegt að aukin fjárfesting á þessu sviði geti komið sér vel einmitt þegar núverandi uppsveifla er um garð gengin," segir í Vegvísi Landsbankans.