*

fimmtudagur, 20. febrúar 2020
Erlent 25. mars 2013 07:44

Samkomulag hefur náðst á Kýpur

Innstæður yfir 100.000 evrum í tveimur stærstu bönkum Kýpur verða þjóðnýttar að verulegu leyti.

Ritstjórn

Í nótt náðist samkomulag milli stjórnvalda á Kýpur, ESB, evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um tíu milljarða neyðarlán til að koma í veg fyrir hrun fjármálakerfisins á Kýpur og til að halda landinu í evrunni.

Samkomulagið felur í sér að næst stærsti banki landsins, Laiki Bank, verður í raun leystur upp. Innstæður undir 100.000 evrum verða fluttar í Kýpurbanka, stærsta banka landsins, en innstæður yfir 100.000 evrum í Laiki Bank og Kýpurbanka verða þjónýttar að verulegu leyti, en nánari útfærsla á þjóðnýtingunni verður ákveðin síðar.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sett það sem skilyrði að kýpverska þingið fái ekki að kjósa um það hvernig farið verður með stærri innstæðurnar, að því er segir í frétt BBC. Samningar náðust á síðustu stundu, því fresturinn sem evrópski seðlabankinn veitti til þess rann út í nótt.

Vitað er að Rússar eiga háar fjárhæðir á kýpverskum bönkum og höfðu tekið afar illa í hugmyndir um allt að 9,9% skatt á innstæður. Áhugavert verður því að sjá hvernig þeir taka þeim fréttum að endanlegur „skattur“ á háar innstæður verður mun hærri en 10%.