Samkomulag um öll efnisatriði samnings við Pólverja um 200 milljóna dala lán til Íslendinga hefur nú náðst, að sögn Jóns Sigurðssonar, formanns samninganefndar íslenskra stjórnvalda.

Einungis á eftir að yfirfara lögformlegan samningstexta og fullnægja nokkrum formsatriðum innan pólska stjórnkerfisins, segir hann. Stefnt er að því að samningurinn verði formlega undirritaður um mánaðamótin september/október.

Fulltrúar íslensku samninganefndarinnar funduðu með pólsku samningamönnunum í Varsjá í síðustu viku og komu þeir heim á laugardag.

Lánstíminn tólf ár og fyrsti fimm árin afborgunarlaus

Samningurinn við Pólverja er, að sögn Jóns, um margt hliðstæður Norðurlandasamningnum meðal annars að því leyti að lánstíminn er tólf ár og fyrstu fimm árin eru afborgunarlaus. „Í [Pólverjasamningnum] er hins vegar öðruvísi gjaldmiðilsákvæði og greiðslufyrirkomulag sem ég ætla ekki að tíunda að svo stöddu," segir hann.

Jón gerir ráð fyrir að lánið frá Pólverjum verði greitt út í þremur áföngum í takt við endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda. Miðað sé við að fyrsta útborgunin verði innt af hendi við aðra endurskoðun áætlunar AGS.

Eins og kunnugt er, er búist við að fyrsta endurskoðun áætlunarinnar verði um garð gengin í september.

Engin krafa um lausn Icesave

Jón segir að Pólverjar hafi tekið það skýrt fram í samtölum að þeir geri enga sérstaka kröfu um Icesave-samningana. „Þeir hafa ekki gefið neinar yfirlýsingar frá eigin brjósti um það mál og segja að það sé ekki þeim viðkomandi."

Jón segir aðspurður að Rússalánið gangi fremur hægt  „en hins vegar höfum við ekki látið deigan síga í því."