Forystumenn ríkisstjórnarinnar munu upplýsa á blaðamannafundi nú eftir hádegi að ákveðið hafi verið að leita aðstoðar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF). Stjórn sjóðsins fundaði í gær og má búast að hann fallist á aðstoðina.

Ekki liggur fyrir nákvæmlega í hverju aðstoðin mun felast, en reikna má með að hún verði meðal annars í formi lánveitingar og aðstoðar við að bæta greiðslumiðlun við útlönd.

Fulltrúar IMF hafa verið hér á landi undanfarnar vikur vegna fjármálakreppunnar. Fundað hefur verið stíft síðustu daga og frá því snemma í morgun hefur verið fundað í Ráðherrabústaðnum.

Þar voru meðal annars Geir H. Haarde forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari.

Um ellefuleyfið funduðu ráðherrarnir og ríkissáttasemjari með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna og kl. 13.15 í dag verður fundað um málið í utanríkismálanefnd þingsins.

Blaðamannafundur ríkisstjórnarinnar verður svo haldinn kl. 14.15. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sömuleiðis boðað til blaðamannafundar kl. 15.