Samkomulag norrænu seðlabankanna frá árinu 2003 um viðbrögð við fjármálaáföllum er enn í fullu gildi en svo virðist að menn kjósi að túlka það með misjöfnum hætti.

Í fréttatilkynningu Seðlabankans, þegar samkomulagið var gert kom fram að það eigi við þegar alvarleg vandamál steðja að banka með höfuðstöðvar í einu Norðurlandanna sem er jafnframt með starfsstöð í öðru norrænu ríki en Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn eru allir með starfsstöðvar á hinum Norðurlöndunum.

Þá segir í tilkynningu Seðlabankans að í samkomulaginu sé kveðið á um að hver  og einn seðlabankanna geti boðað til fundar í „starfshópi um viðbrögð við fjármálaáföllum“ sem skipaður er háttsettum fulltrúum bankanna.

Jafnframt er í samkomulaginu vísað til þess hvaða seðlabanki skuli hafa forystuhlutverk á hendi, hvaða samskipti skulu eiga sér stað við fjármálaeftirlit, viðeigandi ráðuneyti, bankastjóra og aðra aðila.

Þá segir að „þar sem hver fjármálakreppa hefur sín sérkenni er ekki  tilgreint í samkomulaginu til hvaða aðgerða skuli grípa til þess að leysa þau vandamál sem kunna að hafa skapast. Þar sem hér er um samvinnu á milli seðlabanka að ræða snúast þó meginatriði samkomulagsins um leiðir til þess að tryggja lánastofnunum laust fé."