Viðskiptaráðherrar helstu hagkerfa heims hafa samþykkt að hefja á ný Doha-viðræðurnar um viðskiptafrelsi. Átta ár eru frá því að viðræðurnar, kenndar við borgina Doha í Katar, hófust á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Samkomulag viðskiptaráðherranna náðist degi eftir að Barack Obama Bandaríkjaforseti sýndi stuðning við viðræðurnar með því að skipa nýjan sendiherra við WTO, að því er segir í frétt WSJ.

Ítrekað hefur slitnað upp úr viðræðunum vegna deilna um niðurgreiðslur landbúnaðarafurða hjá þróaðri ríkjum og opnun markaða þróunarríkja fyrir iðnvarning. Í frétt WSJ er haft eftir viðskiptaráðherra Indlands að mikilvægur áfangi hafi náðst í viðræðunum, en viðskiptaráðherrarnir hafa setið á fundi í höfuðstöðvum WTO í Genf í fyrsta sinn í rúmt ár.