Samtök atvinnulífins hafa skrifað undir samkomuleg við Samband íslenskra sveitarfélaga, velferðarráðuneytið og fjármálaráðuneytið um samstarf sem á að auka launajafnrétti á Íslandi. Launamunur milli kynjanna hjá opinberum starfsmönnum nemur 13% og allt upp í 19% en í launakönnun VR var 9,4% óútskýrður launamunur.

Samkomulagið felur í sér að settur verður á fót aðgerðarhópur samstarfsaðila til tveggja ára og mun hópurinn meðal annars vinna að samræmingu rannsókna á kynbundnum launamun, annast gerð áætlunar um kynningu jafnlaunastaðals, upplýsingamiðlun og ráðgjöf um launajafnrétti kynjanna til stofnana og fyrirtækja.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir að slíkt samstarf sé mikilvægt. Stjórnendur fyrirtækja og stofnana þurfi að vera sífellt vakandi yfir þessum málum því kyndbundinn launamunur sé óásættanlegur.

Samtök atvinnulífsins vinnur nú við gerð jafnlaunastaðals sem er frumkvöðlaverkefni sem þekkist ekki annars staðar. Sá staðall er ætlaður fyrir fyrirtæki og stofnunum og tryggir að konum og körlum séu greidd sömu laun fyrir sambærileg störf.