Grikkland
Grikkland

Leiðtogar Evrópusambandsins kynntu í gær samkomulag um nýja efnahagsbjörgun fyrir Grikkland. Áætlunin hljóðar upp á 159 milljarða evra og leggja fjármálastofnanir til 50 milljarða evra af heildarupphæðinni. Grikkir hafa nú fengið 269 milljaraða evra neyðaraðstoð en í fyrra fengu þeir 110 milljarða evra lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. Alls nema lánin til Grikkja 45 þúsund milljörðum í krónum talið.

Bankastjóri Seðlabanka Evrópu, Jean-Claude Trichet, fagnar að samningar hafi náðst en fundað hefur verið í allan dag um lausn á skuldavanda Grikklands.

Vextir lækkaðir

Í samkomulaginu kemur fram að lán gríska ríkisins verða lengd úr rúmum sjö árum í allt að þrjá áratugi. Þá verða vextir lækkaði í 3,5%. Með þessu lækka skuldir Grikklands úr 160% af þjóðarframleiðslu í u.þ.b 136%. Vextir á neyðarlánum til Írlands og Portúgal verða einnig lækkaðir. Skuldir gríska ríkissjóðsins eru um 350 milljarðar evra.

Forsætisráðherra Grikklands, George Papandreou, sagði á blaðamannafundi að niðurstaðan væri mikill léttir fyrir Grikkland. Þá sagði hann að með neyðarláninu geti skuldir hins opinbera hjá gríska ríkinu minnkað um 26 milljarða evra fyrir árslok 2014.

Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, sagði að í fyrsta skipti taka einkareknar fjármálastofnanir þátt í björgunaraðgerðum sem þessari í Evrópu.