Geir H. Haarde forsætisráðherra og Danny Williams, forsætisráðherra Nýfundnalands og Labrador, undirrituðu í dag samkomulag um tvíhliða samstarf Íslands og þessa nágrannafylkis okkar í Kanada.

Með samkomulaginu er stefnt að aukinni samvinnu á sviði menningar, mennta og lista. „Við fögnum þessu samkomulagi milli Íslands og Nýfundnalands og Labrador sem mun án nokkurs vafa stuðla að auknum samskiptum milli þessa tveggja nágranna við Norður-Atlantshaf, á vettvangi yfirvalda, stofnana og atvinnulífs,“ sagði Geir Haarde samkvæmt vef forsætisráðuneytisins.

„Samkomulagið nær til margra þátta og mun vonandi stuðla að auknum samskiptum, bæði á sviði efnahagslífs og menningar.“ Gert er ráð fyrir að stofnuð verði sérstök nefnd sem kannar hvernig hægt verði að efla almenn samskipti Íslands og Nýfundnalands og Labrador.