Garðabær og Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) hafa gert með sér samkomulag um úrlausn ágreinings og gerðardómsmeðferð vegna fjölnota íþróttahúss sem er í byggingu í Vetrarmýri í Garðabæ.  Undanfarna mánuði hafa verið viðræður og sáttaferli milli aðila til að reyna leysa úr ágreiningi sem hefur verið uppi um kostnað við grundun hússins. Sérfræðingar á vegum beggja aðila hafa farið yfir tillögur að hönnun á grundun hússins og kostnað vegna þessa.

Húsið verður tilbúið í lok árs 2021

Í samkomulaginu um úrlausn ágreiningsins er gert ráð fyrir að aðilar leggi fram framlag að fjárhæð 60 mkr hvor óháð því hvaða niðurstaða fæst úr niðurstöðu gerðardóms.  Með samkomulaginu er gert ráð fyrir að undirbúningur að grundun hússins haldi áfram og að niðurrekstur staura verði hafinn eftir 6-10 vikur eða eins fljótt og unnt er.  Ágreiningur um viðbótarkostnað fer fyrir gerðardóm þar sem fjallað verður um ábyrgð á viðbótarkröfu verktaka sem nemur um 228 mkr.  Gert er ráð fyrir að þegar búið verði að skipa gerðardóm liggi niðurstaða fyrir um úrlausn málsins síðar í haust. Í samkomulaginu er einnig kveðið á um að framlengja verktíma fram í desember 2021 án tafarbóta en upphaflega stóð til að ljúka verkinu í apríl 2021.  Bæjarráð Garðabæjar samþykkti samkomulagið með fjórum atkvæðum gegn einu á fundi sínum 23. júní sl. og verður það undirritað af bæjarstjóra með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar Garðabæjar.

,,Það er ánægjulegt að samkomulag hafi náðst og að verkið geti hafist á ný og verði lokið á árinu 2021. Bygging fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri er stór og mikil framkvæmd og mikilvægt að leysa úr þeim ágreiningi sem var uppi með því samkomulagi sem nú liggur fyrir.  Það verður mikil tilhlökkun að sjá húsið rísa og verða nýtt til alhliða heilsueflingar og hreyfingar fyrir yngri sem eldri íbúa Garðabæjar“ segir Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar.

Framsýn lausn á íþróttasvæði í góðum tengslum við byggð og samgöngur

Í lok árs 2018 var undirritaður verksamningur milli Garðabæjar og ÍAV um hönnun og byggingu fjölnota íþróttahússins í alútboði og framkvæmdir við verkið hófust vorið 2019.  Heildarkostnaður við byggingu hússins er um fjórir milljarðar.

Fjölnota íþróttahúsið verður með rými fyrir knattspyrnuvöll í fullri stærð innanhúss auk upphitunaraðstöðu ásamt tilheyrandi stoðrýmum. Stærð íþróttasalarins verður um 80x120 m,  með anddyri og öðrum stoðrýmum er flatarmál hússins um 18.200m².

Markmið deiliskipulags lóðarinnar er að skapa umgjörð um raunhæfa og framsýna lausn á íþróttasvæði í góðum tengslum við byggð og samgöngur.