Gengið hefur verið frá samkomulagi um íslensk-rússneskan skóla um orkumál með áherslu á endurnýjanlega orkugjafa. Í gær var undirritað í Moskvu samkomulag þessa efnis milli Alþjóðaskólans um orkumál í Moskvu, sem Alþjóðasamskiptaháskóli rússneska utanríkisráðuneytisins (MGMIO) rekur, og Orkuháskólans á Akureyri, RES. Þetta kemur fram í frétt utanríkisráðuneytisins.

Skólinn mun annast þjálfun og endurmenntun sérfræðinga á sviði alþjóðlegra orkuvísinda með séráherslu á endurnýjanlega orkugjafa. Skólinn mun m.a. standa fyrir nemenda- og kennaraskiptum og samstarfi á sviði rannsókna.

Stofnun skólans er mikilsvert framlag til Norðlægu víddarinnar í samskiptum Evrópuríkja og Rússlands þar sem orku- og loftslagsmál eru forgangsmál segir í fréttinni.

Samningurinn um skólastofnunina var undirritaður í Moskvu í gær í viðurvist sendiherra Íslands í Moskvu og háttsettra embættismanna rússneska utanríkisráðuneytisins.