Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra og Knut Storberget dómsmálaráðherra Noregs hafa skrifað undir samkomulag um samstarf Íslands og Noregs um kaup og rekstur nýrra langdrægra björgunarþyrlu. Miðað er við að Ísland kaupi þrjár nýjar björgunarþyrlur og Noregur tíu til tólf.

Stefnt er að því að þyrlurnar verði afhentar á árunum 2011-2014. Samvinnu ríkjanna er ætlað að leiða til fjárhagslegs ávinnings og ýmiss konar hagræðis, bæði við innkaup og rekstur þyrlanna. Skiptir þar mestu viðhaldsþjónusta og þjálfun flugmanna og flugvirkja. Í tilkynningu vegna samstarfsins segir að ríkisstjórnin hafi veitt Birni Bjarnasyni dóms- og kirkjumálaráðherra umboð til að rita undir samkomulagið við Norðmenn á fundi sínum 16. nóvember sl.

Er það í samræmi við áður samþykktar tillögur dóms- og kirkjumálaráðherra um eflingu þyrlusveitar landhelgisgæslunnar sem gera ráð fyrir því að í sveitinni verði fjórar björgunarþyrlur, þ.e. þrjár stórar björgunarþyrlur auk einnar minni þyrlu. Þar með verði björgunargeta að lágmarki sú að unnt verði að sinna leit og björgun með þyrlu á landi og innan 200 sjómílna efnahagslögsögu Íslands við erfiðar veðuraðstæður og bjarga mönnum um borð í þyrlu á þeim ystu mörkum. Jafnframt að öryggi þyrluáhafna verði eins vel tryggt og kostur er og að ávallt verði þyrla í viðbragðsstöðu þegar önnur fer í lengri ferðir frá ströndu.

Endanlegt kaupverð nýrra og fullkominna björgunarþyrla ræðst bæði af kröfum sem til þeirra verða gerðar og samkeppni milli framleiðenda. Gera má ráð fyrir að kaupverð hverrar björgunarþyrlu er fullnægir framangreindum skilyrðum geti verið um 2 milljarðar íslenskra króna. Þá má gera ráð fyrir varanlegri hækkun rekstrarkostnaðar landhelgisgæslunnar vegna aukins mannafla.

Við framkvæmd samkomulagsins verður gætt gildandi reglna um opinber innkaup hér á landi og á Evrópska efnahagssvæðinu. Samráð hefur verið haft við Ríkiskaup, fjármálaráðuneytið og Landhelgisgæslu Íslands. Í samvinnu við þá aðila verður beitt aðferðum verkefnastjórnunar við undirbúning, skipulagningu og stjórnun þyrluverkefnisins af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Þar til nýjar þyrlur verða afhentar leigir Landhelgisgæsla Íslands Eurocopter Super Puma og/eða Dauphin þyrlur til leitar- og björgunarflugs, svipaðar þeim sem landhelgisgæslan hefur rekið undanfarna rúma tvo áratugi, segir í tilkynningunni.