Samkomulag um sértæka skuldaaðlögun einstaklinga fellur niður nú um áramótin. Í því hefur falist að skuldir og eignir einstaklinga og hjóna í greiðsluvanda eru lagaðar að greiðslugetu. Lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka og gjaldeyrishrunsins voru sett í október 2009 en falla úr gildi um næstu áramót. Á heimasíðu Arion banka er vakin athygli á þesu.

Eins og fram kemur á vefsíðu bankans eiga allir einstaklingar sem skulda verðtryggð fasteignalán rétt á að fá þau greiðslujöfnuð. Þá eru mánaðarlega greiðslur lækkaðar þar sem greiðslubyrði tekur mið af greiðslujöfnunarvísitölu í stað vísitölu neysluverðs.

Fyrsta afborgun eftir greiðslujöfnun miðast við upphæð greiðslu af láninu eins og hún var 1. janúar 2008 ef lánið var tekið fyrir þann tíma, en við útreiknaðan gjalddaga á verðlagi við lántöku hafi það verið tekið síðar. Greiðslu hluta afborgunar samkvæmt skilmálum skuldabréfsins er frestað þar til upphaflegum lánstíma er lokið. Lánstíminn lengist því og afborgunum fjölgar.

Þak er sett á lengingu fasteignaveðlána þannig að þau lengjast að hámarki um þrjú ár vegna greiðslujöfnunar umfram gildandi lánasamning. Ef einhverjar eftirstöðvar eru af láninu að þeim tíma liðnum falla þær niður.