Stykkishólmsbær, írska fyrirtækið Marigot Ltd. sem á Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal, og Matís ohf. hafa undirritað samkomulag í tengslum við verkefni sem lýtur að aukinni virðissköpun með frekari nýtingu stórþörunga við Breiðafjörð í nýju iðnfyrirtæki, Deltagen Iceland ehf.

Deltagen áætlar að reisa verksmiðju í Stykkishólmi. Gangi þær áætlanir eftir má gera ráð fyrir að starfsemi Deltagen Iceland með 15 nýjum heilsársstörfum hefjist á síðari hluta árs 2016, að því er segir í tilkynningu.

Eins og greint var frá í síðustu viku hefur Marigot keypt 60% hlut í vinnsluhluta starfsemi nýsköpunarfyrirtækisins Marinox ehf. sem var alfarið í eigu Matís og tveggja lykilstjórnenda þar. Um er að ræða þann hluta fyrirtækisins sem heldur utan um rannsóknir og vinnslu verðmætra hráefna úr hafinu, þangs og þara.