Forsenda aðstoðar Norðmanna við Ísland er sú að samkomulag sé gert við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Vilji Norðmanna til að aðstoða Íslendinga liggur fyrir, að áðurnefndu skilyrði uppfylltu. Hið sama á við um aðrar vinaþjóðir Íslands.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra ræddi ítarlega við Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs og Jonas Gahr Störe utanríkisráðherra Noregs í síma um helgina. Ingibjörg Sólrún ræddi einnig við Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakka í síma á laugardag. Kouchner fullvissaði Ingibjörgu Sólrúnu um vináttu Frakka.

Kouchner og Ingibjörg Sólrún hyggja á fundahöld eins fljótt og frekast er unnt.