Drög að samkomulagi við írska Depfa-bankann voru kynnt í bæjarráði Hafnarfjarðar í gær að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Hafnarfjörður skuldar Depfa-bankanum um 13 milljarða króna. Ekki verður upplýst efni samkomulagsins nema lánanefnd bankans samþykki drögin samkvæmt Morgunblaðinu.

Gjaldfallið í apríl

Lán sem bankinn veitti bænum upp á fjóra milljarða króna féll á gjalddaga í apríl. Lánið er í þremur hlutum og var sá partur þess sem er fallinn á gjalddaga tekinn að láni hjá Depfa-bankanum árið 2008. Þetta er aðeins um einn þriðji af heildarskuldbindingum bæjarins gagnvart þessum eina banka en heildarlánið gagnvart honum stendur í um þrettán milljörðum króna að teknu tilliti til gengisþróunar.