Kínverski auðkýfingurinn Huang Nubo, sem er stjórnarformaður Zhongkun-fjárfestingarfélagsins, segist hafa komist að samkomulagi um leigu á Grímsstöðum á Fjöllum. Hann segir í samtali við Bloomberg að formlegt samkomulag verði undirritað í síðasta lagi í október.

Í frétt mbl.is segir að leiguverðið verði um einni milljón dala lægra heldur en kaupverðið, eða í kringum einn milljarður króna.

Áform Huangs miðast að því að bjóða upp á ferðaþjónustu og afþreyingu á Grímsstöðum á Fjöllum. Í framhaldinu hyggst hann líta til Norðurlandanna í sama tilgangi og stefnir m.a. að því að fjárfesta í Danmörku og í Svíþjóð.

Zhongkun-fjárfestingarfélagið hyggst reisa hótel, um 100 glæsihýsi og golfvöll. Hann býst við því að félagið geti leigt svæðið til 40 ára og í framhaldinu eigi það svo rétt á því að framlengja leigutímann um önnur 40 ár.