Það eru ekki margir möguleikar sem koma til greina við lausn sjóhengjunnar sagði Eatwell lávarður, sem er hagfræðiprófessor við Háskólann i Cambridge. Slitastjórn Glitnis fékk Eatwell til þess að vinna sjálfstætt mat á þjóðhagslegum áhrifum helstu álitaefna við endurskipulagningu þrotabús Glitnis. Einn stærsti vandinn eru eignir sem kröfuhafar eiga hér en bíða eftir því að koma úr landi. Eatwell kynnti niðurstöður sínar á fundi í Lundúnum á þriðjudag og fjallaði meðal annars um þetta mál.

Eatwell sagði að ekki dygði að nota viðskiptajöfnuð til þess að draga úr snjóhengjunni, það tæki allt of langan tíma. Þar þyrfti að grípa til stórtækari aðgerða, svo sem eignasölu, endurskipulagningu skulda eða nota stórtæka erlenda fjárfestingu í því skyni. Einhvers konar blanda af þessu kæmi vitaskuld vel til greina, en æsklegast væri að íslensk stjórnvöld og kröfuhafar kæmust að sameiginlegri niðurstöðu, sem væri báðum hagfelld og til þess falin að viðhalda og styrkja trúverðugleika hagkerfisins og gengi íslensku krónunnar. Jafnframt mælti Eatwell með því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn yrði fenginn til þess að fylgjast með og veita samkomulaginu blessun sína, slíkt væri mikils virði við að skapa traust á samningnum.

Eatwell lávarður er virtur hagfræðingur á alþjóðavísu. Hann er forseti Queens College við Cambridge háskóla, heiðursprófessor í fjármálastefnumótun við Cambridge háskóla og prófessor í hagfræði við Háskólann í Suður-Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hann er höfundur á fjórða tug bóka og sjö tuga fræðigreina um hagfræði, hagræna stefnumótun og fjármál.