Fulltrúar Faxaflóahafna sf. og bandaríska iðnfyrirtækisins Silicor Materials Inc. undirrituðu í dag samninga um lóð, lóðarleigu og afnot af höfn vegna fyrirhugaðrar sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Theresa Jester forstjóri og Gísli Gíslason hafnarstjóri undirrituðu fyrir hönd Silicor og Faxaflóahafna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Fjármögnunarsamningar verkefnisins eru nú á lokastigi. Bandaríska fyrirtækið stefnir að því að hefja framkvæmdir haustið 2015 og framleiðslu á síðari hluta árs 2017. Áætlað er að um 450 manns starfi á Grundartanga á vegum Silicor.

Gísli Gíslason segir að samningarnir séu mikill áfangi fyrir Faxaflóahafnir, Grundartangasvæðið og raunar allt athafna- og vinnusvæðið á Suðvestur- og Vesturlandi.

„Ég hlýt að vekja athygli á að Faxaflóahafnir taka hér þátt í að „landa“ risastóru fjárfestingarverkefni sem hafa mun mikil áhrif á atvinnulífið, einkum á Suðvestur- og Vesturlandi, og stuðla að efnahagslegri uppbyggingu á Íslandi yfirleitt,“ segir Gísli.

Theresa Jester, forstjóri Silicor Materials, segir að aðstæður og hafnarstarfsemi Faxaflóahafna  á Grundartanga henti starfsemi Silicor fullkomlega og þjóni því markmiði fyrirtækisins koma framleiðsluvörum sínum fljótt og örugglega til viðskiptavina en halda jafnframt rekstrarkostnaði í skefjum.

„Við horfum mjög til möguleika sem staðsetning Grundartangahafnar skapar á heimsvísu, mitt á milli meginlands Evrópu og Norður-Ameríku. Við hlökkum til þess að hefja rekstur á Íslandi og starfa með Íslendingum í væntanlegri verksmiðju og við Grundartangahöfn,“ segir hún.