„Það var fyrr á þessu ári,“ segir Hannes Frímann Hrólfsson spurður um það hvenær hann gerði samkomulag við slitastjórn Kaupþings um uppgjör á lánum sem hann fékk til kaupa á hlutabréfum bankans. Hann telur samkomulagið líklega vera svipað þeim sem fyrrverandi starfsmenn Kaupþings höfðu gert við slitastjórnina. Hann sagðist í samtali við vb.is ekki geta tjáð sig um málið að öðru leyti.

Hannes var aðstoðarframkvæmdarstjóri markaðsviðskipta Kaupþings og fékk á árunum 2005 til 2007 lán hjá bankanum til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi hann í nóvember í fyrra til að greiða tæpan 1,1 milljarð króna vegna lánanna, sem hann hafði fært inn í einkahlutafélagið HFH ehf.

Nokkrum dögum áður en Kaupþing og hinir bankarnir fóru í þrot í október árið 2008 rifti stjórn bankans persónulegri ábyrgð starfsmanna á lánum sem þeir höfðu fengið til hlutabréfakaupa. Héraðsdómur rifti þeirri ákvörðun eftir að skilanefnd tók við stjórn hans. Slitastjórn sem tók við störfum skilanefndar hefur nú samið við nær alla fyrrverandi starfsmenn Kaupþings um uppgjör lána. Eftir standa nokkrir af þeim sem voru æðstu stjórnendur bankans en mál þeirra eru rekin fyrir dómstólum.