Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra hefur , í sam­ræmi við til­lögur sótt­varnar­læknis, á­kveðið að frá og með morgun­deginum, 26. júní, munu allar tak­markanir á sam­komum innan­lands falla úr gildi. Þá eru fjöld­atak­markanir, nándar­reglur og grímu­skylda af­numdar. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Heil­brigðis­ráðu­neytinu .

Þá verða reglur um sam­komur ekki háðar öðrum tak­mörkunum en al­mennt giltu áður en far­aldurinn skall á. „Í raun erum við að endur­heimta á ný það sam­fé­lag sem okkur er eðli­legt að búa í og sem við höfum þráð, allt frá því að heimildir sótt­varna­laga til að tak­marka sam­komur voru virkjaðar vegna heims­far­aldurs fyrir rúmu ári, þann 16. mars 2020," segir heil­brigðis­ráð­herra, í til­kynningunni.

„Um 87% þeirra sem áformað er að bólusetja hafa nú fengið a.m.k. eina sprautu, um 60% eru fullbólusett gegn Covid-19 og nú ættu öll sem ekki var áður búið að bjóða bólusetningu að hafa fengið slíkt boð. Áætlanir stjórnvalda um framgang bólusetningar og afléttingu samkomutakmarkana hafa því gengið eftir að fullu," segir í tilkynningunni.

Þann 1. júlí taka gildi breyttar reglur varðandi sýna­tökur á landa­mærum og gilda til 15. ágúst.

Í tilkynningunni segir að:

  • Þann 1. júlí verður sýnatökum hætt hjá þeim sem framvísa gildum vottorðum um bólusetningu með bóluefnum sem Lyfjastofnun Evrópu og/eða WHO hafa viðurkennt. Bólusetning telst gild tveimur vikum eftir að hlutaðeigandi fékk síðari skammt bóluefnis, en hafi fólk verið bólusett með bóluefni Janssen þarf ein vika að hafa liðið frá bólusetningu.
  • Sýnatöku verður hætt hjá börnum sem fædd eru 2005 eða síðar.
  • Þau sem framvísa gildum vottorðum um bólusetningu og fyrri sýkingu af völdum Covid-19 og börn fædd 2005 og síðar þurfa ekki að framvísa neikvæðum PCR-vottorðum við komuna til landsins frá og með 1. júlí.
  • Í tilvikum þeirra sem ekki geta framvísað gildum vottorðum um bólusetningu gegn Covid-19 eða fyrri Covid-19 sýkingu þarf áfram að framvísa neikvæðu PCR-vottorði við byrðingu og á landamærum, undirgangast skimun með PCR-prófi við komuna til landsins og dvelja í sóttkví í 5 daga og undirgangast seinni skimun að henni lokinni.