Bandaríkjadalur hefur styrkst nokkuð að undanförnu eftir að hafa nær linnulaust veikst gagnvart evrunni allt frá árslokum 2001. Gengi dalsins náði sex vikna hámarki gagnvart evrunni á miðvikudag og að sögn Financial Times er þeirri þróun fagnað af stefnusmiðum beggja vegna Atlantsála.

Blaðið fullyrðir að þeir óttist að þróunin á gjaldeyrismörkuðum hafi í of miklum mæli tekið mið af núverandi ástandi í bandaríska hagkerfinu og streitunni á fjármálamörkuðum, án þess að taka tillit til horfa í hagkerfum Bandaríkjanna og evruríkjanna til meðallangs tíma.

Þrátt fyrir að gengisfall dalsins hafi aukið hraðann á leiðréttingu viðskiptahallans þar vestra telja margir að gengisþróun hans gagnvart evru kunni að skaða bæði hagkerfin. Þess má geta að evran hefur styrkst hlutfallslega meira gagnvart dal en aðrir helstu gjaldmiðlar og það þýðir einfaldlega að evran ber þyngri byrðar en til að mynda útflutningshagkerfi Asíu af þeirri leiðréttingu.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .