Hagstofa Íslands birti fyrir helgi Hagtíðindi yfir fjármál hins opinbera á fyrsta ársfjórðungi. Þar kom meðal annars fram að skuldir ríkisins í lok mars hafi verið 69,5% af áætlaðri landsframleiðslu og hefur hlutfallið ekki verið lægra frá hruni. Tekjuafgangur hins opinbera án stöðugleikaframlaga hefur ekki verið meiri á einum ársfjórðungi síðan 2007.

Hagstofan gerir þann fyrirvara við uppgjörið að meiri óvissa sé í því en undir venjulegum kringumstæðum. Ástæðan er sú að breytingar hafa átt sér stað á gagnaskilum í tengslum við innleiðingu laga um opinber fjármál. Þá hafa óreglulegir liðir talsverð áhrif á allar hreinar upphæðir. Breytingar kunna því að verða á niðurstöðum uppgjörsins vegna fyllri upplýsinga. Tölurnar ættu þó að gefa vísbendingu um það hvert fjármál hins opinbera stefna.

Í Hagtíðindum kemur einnig fram að samneysla hins opinbera hafi aukist þó nokkuð á fyrstu þremur mánuðum ársins. Samneysla hins opinbera – megnið af þjónustu hins opinbera, svo sem rekstur menntastofnana, sjúkrahúsa og ráðuneyta – jókst að raungildi um 1,8% borið saman við 0,8% á sama tíma í fyrra. Samneysla ríkissjóðs eykst milli ára úr 1,3% í 2,2%.

Ari Skúlason, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, segir ljóst af uppgjöri hins opinbera að samneyslan sé að taka við sér.

„Það gefur augaleið að það er mikilvægt að tekjur hins opinbera séu að aukast og skuldir ríkissjóðs að minnka í hlutfalli við landsframleiðslu,“ segir Ari.

„En það sem er áhugavert er samneyslan. Þarna eru merki um að hún sé aðeins að taka við sér. Samneyslan er að aukast töluvert mikið eftir að hafa átt svolítið undir högg að sækja upp á síðkastið. Til að mynda hefur hún verið að minnka sem hlutfall af landsframleiðslu og öll umræða í kringum hana hefur verið neikvæð. Þá hafa útgjöld hins opinbera verið að aukast meira en samneyslan og hlutur launa í samneyslu verið að aukast. Það þýðir að ríkið hefur verið að eyða meiri peningi, en án þess að veita meiri þjónustu. Aukning í samneyslu umfram útgjöld er því merki um að þetta sé að færast til betri vegar. Við erum að fá meiri þjónustu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .