Samningafundi Evrópusambandsins, Noregs, Færeyja og Íslands um stjórn veiða á makríl sem staðið hefur frá því á þriðjudag í Bergen í Noregi lauk nú í hádeginu. Á vef sjávarútvegsráðuneytisins segir að engin niðurstaða hafi náðst á fundinum en aðilar hafi ákveðið að halda þeim möguleika opnum að halda áfram viðræðum síðar ef flötur finnst á að leysa málið.

„Enn ber nokkuð á milli aðila þó að nokkuð hafi þokað í samkomulagsátt. Deilt er um skiptingu heildarafla, en deilan snýr ekki síður að ákvörðun þess heildarafla sem óhætt er að veiða úr stofninm á árinu 2014. Ísland hefur miðað við að ekki skuli vikið frá veiðiráðgjöf ICES (Alþjóðahafrannsóknarráðsins) þannig að afkomu stofnsins sé ekki stefnt í hættu á meðan aðrir aðilar hafa sett fram kröfu um að veiða verulega umfram veiðiráðgjöfina,“ segir á vef ráðuneytisins.