Samninganefnd stéttarfélaganna í Straumsvík hefur svarað grein almannatengils Rio Tinto, Ólafs Teits Guðnasonar, sem birtist í Fréttablaðinu á dögunum. Í grein Ólafs var rætt um kjaradeildu fyrirtækisins við starfsmenn sína og fjallaði að hluta um tiltekin atriði sem bundu hendur fyrirtækisins, s.s. að fyrirtækið megi ekki bjóða út rekstur mötuneytis, hliðvörslu og öryggisgæslu, og að kjarasamningar gildi ekki einungis fyrir starfsmenn fyrirtækisins heldur alla starfsmenn allra fyrirtækja sem stíga fæti inn á svæði álversins.

Samninganefndin telur upptalningu Ólafs einungis til þess falin að flækja málið, hún segir a Rio Tinto vilji bæði eiga kökuna og éta hana líka. „Og það veit hvert fimm ára barn að er ekki hægt,“ segir samninganefndin.

Samninganefndin segir að stóra myndin sé sú að á sama tíma og forstjóri fyrirtækisins þiggi sex milljónir á mánuði vilji fyrirtækið ekki greiða íslensk laun fyrir störf 32 Íslendinga sem sinna mötuneyti, hliðvörslu, hafnarvinnu og í þvottahúsi. Fyrirtækið vilji frekar fá erlenda gerfiverktaka til að sinna störfunum á launum sem séu langt undir íslenskum töxtum.

Samninganefndin segir einnig að:

  • Álverin eru einu fyrirtækin sem fá sérkjör á orkuverði.
  • Álverin eru einu fyrirtækin sem komast upp með að greiða lágmarksskatta, en skila um leið erlendum eigendum sínum ofurgróða.
  • Rio Tinto er eina fyrirtækið á Íslandi sem hefur í 45 ár aðeins þurft að eiga við eitt sameinað trúnaðarráð stéttarfélaga þegar semja á um kaup og kjör.
  • Rio Tinto er líklega eina stórfyrirtækið hérlendis sem hefur ALDREI þurft að þola verkfall af hálfu starfsmanna sinna.