Samninganefndir verkalýðsfélaga funda snemma í dag og klukkan 10 hefst fundur Alþingis. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að Alþingi hafi verið frestað til að skapa svigrúm fyrir aðila vinnumarkaðarins. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir ríkisstjórnina með þessu reyna að koma til móts við samningsaðila. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Gylfi segir að samningsaðilum hafi orðið býsna ágengt en að enn hafi verið gjá á milli. "Ég vildi kanna hvort ríkisstjórnin væri tilbúin að hækka mörkin milli lægsta skattþrepsins og milliþrepsins," sagði Gylfi.  "Að sama skapi var ljóst að það ber í milli okkar og atvinnurekenda, bæði gagnvart millitekjuhópunum og lágtekjuhópunum. Það verður að viðurkennast að í efnahagsaðgerðum stjórnvalda fer ekki mikið fyrir aðgerðum fyrir lágtekjuhópa, þó svo þær séu vissulega til staða."