*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Erlent 6. september 2018 12:00

Samningar BNA og Kanada ganga vel

Samningaviðræður Bandaríkjanna og Kanada um nýjan þríhliða fríverslunarsamning til að taka við af NAFTA eru sagðar ganga vel.

Ritstjórn
Donald Trump hefur lagt mikið upp úr því að endursemja um fríverslun milli Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó.
epa

Utanríkisráðherra Kanada, Chrystia Freeland, sagði í gær Bandaríkin og Kanada hafa náð árangri í viðræðum um endurskoðun NAFTA fríverslunarsamningsins, og að þær myndu halda áfram fram á nótt.

Samkvæmt frétt Reuters hljómaði Freeland jákvæð eftir langar viðræður við yfirsamningamann Bandaríkjanna, Robert Lighthizer. Hún minnti þó á að samningar væru ekki í höfn fyrr en síðasta málið hefði verið útkljáð.

Donald Trump Bandaríkjaforseti er einnig sagður hafa hljómað tiltölulega jákvæður, en hann sagðist búast við að í ljós kæmi á næstu dögum hvort samningar myndu nást við Kanada. Hann hefur áður hótað að semja tvíhliða við Mexíkó og drepa þar með hinn 25 ára gamla NAFTA-samning og skilja Kanada útundan, náist ekki samkomulag við Kanada, en Bandaríkin og Mexíkó hafa nú þegar náð samkomulagi um nýjan samning.

Hvorki Freeland né Trump vildu tjá sig um efni samningaviðræðanna, eða á hvaða sviðum árangur hefði náðst. Lighthizer tjáði sig ekki við fjölmiðla.

Stikkorð: Kanada NAFTA