Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að samningaumleitanir vegna eignarhalds Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy á Enex hafi dregist vegna sumarleyfa en tekur fram að hann vonist til að sameiginleg lausn finnist. „Það er enginn efi í mínum huga að menn muni finna sameiginlega lausn,“ segir hann. GGE á 73,1% í Enex og REI, dótturfélag OR, á 26,5% í félaginu. Aðrir eiga minna.

Eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu hefur GGE lýst yfir áhuga á Enex verði sameinað GGE. Samningar um það hafa enn ekki náðst. Á meðan ríkir óvissa um framtíð og fjármögnun verkefna Enex. „Ef menn vilja kaupa okkur út er það leið sem við erum tilbúnir að skoða en okkur hugnast ekki að fara inn í félag [GGE] þar sem við yrðum pínulítill aðili og áhrifalítill,“ segir Hjörleifur. Miðað við söluverð á hlut Landsvirkjunar á liðnu ári má gera ráð fyrir að markaðsvirði Enex sé um fjórir milljarðar og verðmæti hlutar REI því rúmur milljarður.