Samningar sem Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, gerði við níu starfsmenn embættisins skömmu áður en hann lét af störfum eru skuldbindandi fyrir íslenska ríkið og embættið. Þetta er niðurstaða fjögurra efnislega samhljóða dóma sem kveðnir voru upp í Héraðsdómi Reykjavíkur rétt í þessu.

Umræddir samningar voru gerðir á haustmánuðum 2019 en Haraldur lét af störfum í desember það ár. Samkvæmt samningnum voru fastar yfirvinnugreiðslur færðar inn í föst mánaðarlaun. Útborguð laun héldust óbreytt, eða því sem næst, en samkomulagið hafði í för með sér að innborgun í lífeyrissjóð hækkaði hver mánaðamót.

Áhrifin voru því öllu meiri á lífeyrisskuldbindingar ríkisins en hluti starfsmannanna á réttindi í B-deild LSR. Fyrir gerð samningsins var áætlað að skuldbinding vegna starfsmannanna hefði verið 563 milljónir króna en varð 872 milljónir eftir gerð samningsins. Sérstaklega var ritað í samninginn að hann væri í samræmi við stofnanasamning og gerður í samráði við Fjársýslu ríkisins.

Sumarið 2020 tilkynnti nýr ríkislögreglustjóri, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, hlutaðeigandi að eftir yfirlegu teldi embættið sig ekki bundið af samningunum þar sem þeir væru óskuldbindandi eða ógildanlegir að lögum. Könnun embættisins hafði hafist að beiðni dómsmálaráðuneytisins.

Þessu vildu starfsmennirnir ekki una og höfðuðu því dómsmál til viðurkenningar á því að samningarnir væru skuldbinandi fyrir ríkið. Grundvöllur málsins var hin forna meginregla um að samninga skyldi halda og það hefðu starfsfólkið óneitanlega gert. Ríkinu væri óheimilt með öllu að ákveða upp á sitt einsdæmi að falla frá skyldum sínum samkvæmt samningunum.

Harald hefði skort heimild

Í málsvörn ríkisins var aftur á móti byggt á því að þótt forstöðumaður stofnunar hefði heimild til að semja um launasetningu og röðun hefði hann ekki frjálsar hendur þar um. Þannig gætu þeir ekki samið um að fella reglulega yfirvinnu inn í grunnlaun nema til breytinga á starfsskyldum kæmi. Umþrættir samningar hefðu því bæði verið í andstöðu við lög og gildandi kjarasamninga.

„Ákvörðun núverandi ríkislögreglustjóra hafi miðað að því að koma ákvörðun um röðun launa í rétt horf eftir ákvæðum kjara- og stofnanasamnings. Slíkt hafi ekki verið gert í svonefndum samkomulögum frá því í ágúst 2019,“ segir í málsástæðukafla ríkisins. Því til viðbótar hafi samningagerð Haraldar ekki byggst á málefnalegum forsendum.

Í greinargerð ríkisins var það sjónarmið viðrað að ríkislögreglustjóri hefði ekki haft heimilt til að skuldbinda LSR með þeim hætti sem leiddi af samkomulaginu. Í niðurstöðu dómsins var bent á að málið lyti ekki að lífeyrisgreiðslum heldur hvort umþrættir samningar væru skuldbindandi fyrir ríkið.

„[F]orstöðumönnum ríkisstofnana er almennt séð, bæði samkvæmt einstökum ákvæðum í lögum sem og á grundvelli fjárlaga, veitt ákveðið svigrúm til að ákveða hvernig þeir ráðstafa þeim fjármunum sem veitt hefur verið til stofnana þeirra samkvæmt ákvörðun Alþingis,“ segir í niðurstöðukafla dómsins.

Ekki var fallist á það með ríkinu að stofnanasamning bæri að skilja svo að forstöðumaður ríkisstofnunar geti ekki samið um hagfelldari kjör en þar greinir. Gagnályktun frá 24. gr. starfsmannalaga leiddi til þess að samningur við opinberan starfsmann, sem víkur frá ákvæði stofnanasamnings, geti haldið gildi sínu að því gefnu að umsamin kjör veiti honum hagfelldari rétt. Af þeim sökum var því hafnað að umræddir samningar væru óskuldbindandi fyrir ríkið.

Lögreglumennirnir grandlausir

„Þá ber alfarið að hafna þeirri málsástæðu [ríkisins og embætti ríkislögreglustjóra] að samkomulagið […] hafi ekki verið í samræmi við jafnræðisreglu, enda er ágreiningslaust að það var í boði fyrir alla aðstoðar- og yfirlögregluþjóna hjá embættinu,“ segir í dóminum.

Þá tók dómurinn fram að það stæðist ekki skoðun að segja að þarna hefði ákvörðun verið klædd í búning samkomulags. Beinlínis hefði verið tekið fram að þeir sem kjósi að standa utan samkomulagsins njóti áfram óbreyttra kjara og samsetningar launa.

„Þess skal loks getið að ekkert liggur fyrir um annað en það að stefnandi hafi verið grandlaus um ætlaðan heimildarskort þáverandi ríkislögreglustjóra til að gera samkomulagið, en sönnunarbyrði um ætlaða grandsemi hvílir á stefndu. Við nánara mat á þessu skiptir einnig máli að samningurinn var réttilega efndur í um eitt ár,“ segir í dóminum.

Sökum þessa var öllum málsástæðum ríkisins og embættis ríkislögreglustjóra hafnað og stefndu dæmd til að greiða stefnendum 750 þúsund krónur hverjum í málskostnað.