*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 3. nóvember 2004 18:38

Samningar í höfn fyrir samtals 3 milljarða króna

Ritstjórn

Íslandsflug hefur gert samninga um leigu á tveimur flugvélum með áhöfn, viðhaldi og tryggingum fyrir samtals þrjá milljarða króna. Hinir nýju samningar eru með þeim stærstu sem félagið hefur gert og eru jafnframt til lengri tíma en almennt gerist á þeim markaði sem félagið starfar á. Með þessum samningum er Íslandsflug að fara inn á nýtt svið með því að bæta við breiðþotu, Airbus 310-farþegavél.

Til þessa hefur Íslandsflug einungis verið með minni flugvélar í farþegafluginu og er þetta því mikil breyting fyrir félagið. Engu að síður flutti félagið að jafnaði um 110 þúsund farþega í hverjum mánuði á nýliðnu sumri, sem er met hjá félaginu.

Airbus 310-flugvélin verður á samningi hjá Corsair í Frakklandi í vetur. Næsta sumar muni hún hins vegar fljúga frá Dublin á Írlandi og næsta vetur aftur frá Frakklandi. Vélin verður með tveim farrýmum og samtals 254 sætum.

Einnig verður bætt við Airbus 300-600 fraktflugvél sem fer til nýs flugfélags, Etihad, í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Samningurinn um þá flugvél er til ársins 2007, sem er frekar langur samningstími á þessum markaði.
Þessir tveir samningar eru samtals upp á þrjá milljarða króna, annars vegar í tæp þrjú ár og hins vegar í u.þ.b. eitt og hálft ár.