Nýverið bárust fréttir af því að tryggingafyrirtækið Friends Provident myndi mögulega rifta öllum 12 þúsund samningum sem fela í sér sparnað og gerðir voru við Íslendinga eftir 28. nóvember 2008. Að sögn Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, sem gætt hafa hagsmuna vátryggingamiðlara í málinu, hófust viðræður Friends Provident og Seðlabankans í byrjun júlí.

Hann segir fátt benda til þess að Friends muni grípa til jafn afdrifaríkra aðgerða og til stóð. „Friends Provident telur sig ekki geta gefið okkur upplýsingar um það hvernig viðræðurnar ganga að öðru leyti en því að þeir hafa sagt að það sé ekki ástæða til að óttast að gripið verði til aðgerða sem hafa alvarleg og víðtæk áhrif,“ segir Andrés.

Hann segist hafa átt fund með forsvarsmönnum Friends í lok júlí. „Sá fundur var góður og benti til að félagið ætlaði ekki að grípa til neinna afdrifaríkra aðgerða hérna heima og að niðurstaða kæmist í þetta mál fyrir lok þessa mánaðar,“ segir Andrés.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.