Draga þarf úr pólitískum óstöðugleika í íslenskum sjávarútvegi með veigamiklum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu, að mati sérfræðingahóps sem vann tillögur fyrir Samráðsvettvang um aukna hagsæld. Á þriðja fundi Samráðsvettvangsins í þarsíðustu viku voru lagðar fram tillögur þess efnis að í stað núverandi kvótakerfis tæki við fyrirkomulag sem byggir á löngum, framseljanlegum fiskveiðisamningum sem til lengri tíma yrðu boðnir út af hinu opinbera. Leiðin er talin sanngjarnari en núverandi fyrirkomulag þar sem gjaldtaka ríkisins fer fram með veiðileyfagjaldi.

Samningar í stað kvótakerfis

„Við leggjum til að hliðstæð nálgun verði tekin upp við sjávarauðlindirnar. Þetta eru tvö aðskilin mál. Það fyrsta snýst um að í stað rammalöggjafar sem öll útgerðin falli undir, sem stundum er kallað kvótakerfið, verði teknir upp einkaréttarlegir samningar. Samningarnir yrðu staðlaðir, eins og ríkisskuldabréf,“ segir Daði Már Kristófersson, dósent við hagfræðideild HÍ, sem leiddi sérfræðingahópinn sem vann tillögur er varða auðlindageirann. Hann segir sjávarútvegstillögurnar hliðstæðar því sem þekkist í orkugeiranum. „Auðlindastjórnun er og verður alltaf pólitískt deilumál og því er útilokað að eyða allri pólitískri óvissu úr rekstri fyrirtækjanna. Við höfum átt góða umræðu í orkugeiranum þar sem nauðsynlegt þykir að ákveðinn fyrirsjáanleiki sé til staðar,“ segir hann og tekur dæmi um samninga til 40 til 65 ára í orkugeiranum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.