Tugir mála eru til rannsóknar hjá ríkisskattstjóra vegna skattálagningar á söluréttarsamningum sem fyrirtæki gerðu við starfsmenn sína. Málin snerta meðal annars samninga sem gerðir voru við starfsmenn Kaupþings, Glitnis, Atorku, Actavis og Nýherja, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í vikunni að Bjarka H. Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóra lögfræðisviðs Kaupþings, beri að greiða skatt eins og um launatekjur væri að ræða af hagnaði sem hlaust af hlutabréfunum sem fengust vegna söluréttarsamninga.

Gjaldþrota einstaklingum óheimilt að starfa í bönkum

Í máli Bjarka Diego fyrir dómi kom fram að ef skattálagning ríkisskattstjóra myndi standa yrði hann persónulega gjaldþrota. Í ljósi hárra upphæða, allt frá tugum milljóna til nærri hálfs milljarðs króna, má telja líklegt að skattinnheimta nú vegna samninganna komi illa við fjárhag einhverra þeirra tugi einstaklinga sem þá gerðu.

Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar fjármálastofnana mega ekki hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota á síðustu fimm árum samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki frá 2002. Þeir skulu enn fremur vera lögráða og með óflekkað mannorð. Um almenna starfsmenn gilda innri reglur hverrar fjármálastofnunar fyrir sig. Innheimta skattsins getur því komið illa við þá starfsmenn sem enn starfa hjá fjármálafyrirtækjum og mögulega kostað þá starfið.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .