Samningar hafa náðst um að kísilver rísi í Helguvík, að því er kemur fram í tilkynningu frá Íslandsstofu. Fjárfestingarsamningar milli stjórnvalda, Reykjanesbæjar og Íslenska kísilfélagsins ehf., voru undirritaðir í dag. Einnig var gengið frá orkusamningi við HS Orku, hafnarsamningi við Reykjaneshöfn og viljayfirlýsingu um orkuflutninga við Landsnet. Jafnframt hefur verið undirritaður raforkusölusamningur á milli Landsvirkjunar og Íslenska kísilfélagsins. Um er að ræða framleiðslu  á 40 þúsund tonnum af hrákísli. Kísilverið þarf 550 GWa af raforku til starfsemi sinnar eða sem svarar til 65 MW að jafnaði.

Þetta kemur fram í tilkynningum um samningana.

Úr fréttatilkynningu:

„Bandaríska fyrirtækið Globe Speciality Metals, Inc (NASDAQ:GSM),  einn stærsti framleiðandi í heimi af kísilmálmi og sérhæfðu kísilblendi, hefur ákveðið að fjárfesta í verkefninu og mun ráða yfir 85 % hluta í Kísilfélaginu, en 15 % verða áfram í eigu Tomahawk Development á Íslandi ehf.  Síðastnefnda félagið hefur  undanfarin fjögur ár stefnt að því að reisa kísilver í Helguvík. Íslenska kísilfélaginu var veitt starfsleyfi  á árinu 2009 á grundvelli umhverfismats sem lokið var 2008.

Gert er  ráð fyrir að framkvæmdir við kísilver í Helguvík hefjist í byrjun sumars. Verksmiðjuhús munu rísa á 20 mánuðum og eru um 300 ársverk áætluð á framkvæmdatíma. Miðað er við að starfræksla kísilversins hefjist um mitt ár 2013. Um 90 manns  fá vinnu við verksmiðjuna til frambúðar og er þar um að ræða sérfræðinga af ýmsu tagi, iðnaðarmenn og ófaglærða.  Heildarfjárfesting í verkefninu nemur  110.000.000 Evra eða jafnvirði rúmlega 17 milljarða íslenskra króna.

Verkefnið  er fullfjármagnað án ríkisaðastoðar að þeim ívilnunum frátöldum sem veittar eru með fjárfestingarsamningum við íslenska ríkið og Reykjanesbæ.

Globe Speciality Metals Inc. er bandarískt fyrirtæki sem skráð er í NASDAQ kauphöllinni.  GSM framleiðir kísilmálma og kísilmálmblöndur í margvíslega iðnaðarstarfsemi. Fyrirtækið starfrækir fimm kísilver og kísilblendiver í Bandaríkjunum og eitt í Argentínu.  Í viðskiptamannahópi GSM eru meðal annarra framleiðendur á sólarrafhlöðum og örgjörvum, bílum, steypu , efnavöru, áli og stáli.

Nokkur ummæli forsvarsmanna:

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir að hér sé um mikilvæga fjárfestingu að tefla:

„Fyrir utan ákvörðun um stækkun álversins í Straumsvík er þetta fyrsta stóra erlenda nýfjárfestingin eftir bankahrun. Þess vegna hefur hún þýðingu í efnahagslegri endurreisn landsins. Hún mun einnig bæta atvinnuástandið á Reykjanesi en á því er brýn þörf. Ákvörðun GSM að taka þátt í verkefninu er til vitnis um að erlendir fjárfestar telja óhætt að gera samninga til langs tíma á Íslandi og það eru jákvæð skilaboð í alþjóðlegu samhengi. Og síðan gæti þetta verið upphafið að þróun í átt til framleiðslu á hreinkísli hér á landi og þátttöku Íslendinga í vaxandi iðnaði sem tengist sólarrafhlöðum. Græn orka sem nýtist til að beisla sólarorku er draumur margra.“

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, talar um tímamót:

„Þessir samningar  eru fyrsta mikilvæga vísbendingin um að þau stóru atvinnuskapandi verkefni sem við höfum ótrauð þurft að kosta og berjast fyrir eru raunhæf og skammt undan.

Þegar álversverkefnið gengur síðan eftir þýðir þetta algjör umskipti fyrir íbúa á Suðurnesjum og fyrir bæjarfélagið!

Við munum stíga hratt út úr því ömurlega ástandi að búa við mesta atvinnuleysið og búa á láglaunasvæði yfir í að hafa vel launuð og örugg störf fyrir flesta.“

Magnús Garðarsson , forstjóri Íslenska kísilfélagsins ehf, segir að mikil vinna undanfarinna fjögurra ára sé nú að skila sér:

„ Ég er þakklátur fyrir það að þetta verkefni sem við höfum unnið að í fjögur ár skuli nú vera komið í höfn.  Það hefur verið mjög uppörvandi hvað allir aðilar sem komið hafa að málinu á Íslandi hafa lagt sig fram um að greiða götu þess. Ég vil sérstaklega þakka Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra, Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra og Árna Sigfússyni, bæjarstjóra í Reykjanesbæ, fyrir þeirra góða stuðning og embættismönnum fyrir að hafa lagt á sig ómælda vinnu á síðustu mánuðum til þess að ljúka öllum frágangi.

Alan Kestenbaum hjá Globe Speciality Metal á heiður skilinn fyrir að deila með okkur þeirri sýn að Ísland sé kjörinn staður fyrir einhverja hagkvæmustu kísilframleiðslu sem um getur, auk þess sem hún byggir á nýtingu endurnýjanlegrar og samkeppnishæfrar orku. Ákvörðun GSM um að fjárfesta í þessu verkefni hefur mikla þýðingu vegna þess að fyrirtækið býr yfir víðtækri þekkingu og reynslu í kísilmálmframleiðslu og er óumdeilanlega sterkasti aðilinn í greininni um þessar mundir.

Íslenska Kísilfélagið og Vatvedt Tecnology í Noregi hafa þegar hafist handa við hönnun og teikningu á verksmiðjuhúsum á byggingarsvæðinu í Helguvík og nú verður allt kapp lagt á að hefja framkvæmdir við kísilverið í vor.“

Alan Kestenbaum , starfandi stjórnarformaður Globe Speciality Metals Inc,  sem er meirihlutaeigandi í Íslenska Kísilfélaginu ehf., er ánægður með samstarfið við Tomahawk Development á Islandi:

„Stefna okkar hefur verið sú að einbeita okkur að hagkvæmri framleiðslu á hrákísli til þess að mæta vaxandi eftirspurn, sérstaklega í Evrópu, og kísilverið í Helguvík verður eitt hið hagkvæmasta í heiminum. Við þökkum ríkisstjórn Íslands fyrir að tryggja okkur starfsumhverfi sem styður og treystir fjárfestingu af þessu tagi. Hið sama gildir um Landsvirkjun og HS Orku sem hafa gert samninga um orkuútvegun á föstu og samkeppnishæfu verði eins og nauðsynlegt er til þess að fjárfesting af þessu tagi geti gengið upp.  Góðar aðstæður til fjárfestinga á Íslandi, ásamt því hvað landið liggur vel við flutningum, gerir það að ákjósanlegum stað fyrir þessa verksmiðju. Við væntum þess að upphaf byggingar og reksturs muni ganga vel og að Íslenska kísilfélagið verði fyrirmyndarfélag á  Íslandi. Kísilverið gæti orðið grundvöllur að frekari umsvifum á Íslandi í framtíðinni.“

Fréttatilkynning Landsvirkjunar:

„Landsvirkjun og Íslenska kísilfélagið ehf., sem er í meirihlutaeigu bandaríska fyrirtækisins Globe Speciality Metals, hafa undirritað raforkusölusamning um kaup á 35 MW orku frá Landsvirkjun.  Íslenska kísilfélagið hyggst reisa 40.000 tonna kísilmálmverksmiðju í Helguvík á Suðurnesjum.  Gert er ráð fyrir að verksmiðjan verði tekin í notkun um mitt ár 2013.  Raforkuþörf verksmiðjunnar er 65 MW og mun Landsvirkjun fyrst um sinn útvega verksmiðjunni 35 MW og HS Orka 30 MW.  Í samningnum er gert ráð fyrir að Landsvirkjun sinni allri raforkuþörf verksmiðjunnar frá 1. janúar 2016.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir samninginn marka ákveðin tímamót:  „Hjá Landsvirkjun höfum við stefnt að því að auka fjölbreytileika á meðal orkukaupenda og ber samningurinn vitni um árangur þess starfs.  Hér er um að ræða nýja iðngrein, magn sem hæfir orkuframboði nú um stundir og iðnað sem greiðir hærra verð en fyrir þekkist á íslenska markaðnum.  Hér er um grunniðnað að ræða en að okkar mati felast áhugaverðir vaxtar­möguleikar í tengdri og afleiddri starfsemi, til dæmis hreinsun á kísilmálmi,“ segir Hörður.

Samningur Landsvirkjunar og Íslenska kísilfélagsins er gerður í Evrum og er til átján ára með föstum raunhækkunum sem koma til framkvæmda á samningstímanum.  Samkvæmt ákvæðum í samningnum er samningsaðilum ekki heimilt að gefa upp verð samningsins að svo stöddu.

Samningurinn er undirritaður með hefðbundnum fyrirvörum, meðal annars samþykki stjórna beggja félaganna auk fyrirvara frá Íslenska kísilfélaginu ehf. um lúkningu á öðrum samningum til þess að hægt sé að ljúka við verkefnið.  Gert er ráð fyrir að búið verði að uppfylla alla fyrirvara fyrir 15. júní næstkomandi.“