Kjarasamningar voru undirritaðir á milli ríkisins og SFR, Landssambands lögreglumanna og Sjúkraliðafélags Íslands á fimmta tímanum í nótt. Verkföllum hefur því verið aflýst.

Í viðtali við Viðskiptablaðið sagði Árni Stefán Jónsson formaður SFR alla málsaðila vera sátta við samningana.

„Við lögðum af stað í þessa vegferð með ákveðin markmið, og náðum þessum markmiðum, svo það getur ekki annað verið en að við séum sátt við það,“ sagði Árni, sem áætlar að samningarnir verði fyrst kynntir í kringum næstkomandi mánudag.

Hækkunin hljóðar upp á allt að 30% launahækkun næstu fjögur ár. Samningurinn stendur til mars 2019. Samningurinn er afturvirkur, og gildir frá 1. maí síðastliðnum.

„Við félögin þrjú tökum afturvirkninni með mismunandi hætti,“ segir Árni. „Lögreglan ákvað að taka afturvirknina inn í laun, en við í SFR ákváðum að taka afturvirknina sem eingreiðslu þar eð hún var að gefa okkar lægri launuðu hópum alveg upp undir 600 þúsund krónur.“