Íslendingar hafa náð samkomulagi við Færeyinga um fiskveiðiheimildir þeirra síðarnefndu í íslenskri lögsögu og gagnkvæmar veiðar Íslendinga í færeyskri lögsögu á norsk-íslenska síldarstofninum og kolmunna fyrir árið 2018 að því er mbl segir frá.

Kristján Þór Júlíusson ráðherra sjávarútvegsmála ákvað fyrir mánuði að fella úr gildi allar heimildir færeyskra fiskiskipa til veiða innan íslenskrar lögsögu eftir að samningar tókust ekki á fundi ráðherra Íslands og Færeyinga 12. til 13. desember síðastliðinn.

Samkomulag náðist svo nú í hádeginu, en samkomulagið er með sama hætti og gilti á síðasta ári með þeirri viðbót að íslensk skip sem munu fá heimild til kolmunnaveiða í færeyskri lögsögu fjölgar úr 12 í 15. Jafnframt náðu Íslendingar fram lækkun hámarks af ákvörðuðum heildarafla Færeyinga í íslenskri lögsögu, það er úr 30 þúsund tonnum í 25 þúsund.

Verkun Færeyinga á loðnu til manneldis áfram takmörkuð

Jafnframt munu áfram vera takmarkanir á heimildum Færeyinga til að verka loðnu um borð eða landa í Færeyjum til manneldis, þó að heimildirnar séu rýmkaðar þannig að þær taka gildi 17. febrúar en ekki 15. eins og áður. Eftir þá dagsetningu verða færeysk skip því að landa a.m.k. 2/3 af afla sínum í íslenskum höfnum.

Aðrar heimildir um veiðar Færeyinga á botnfiski sem og Íslendinga á makríl í færeyskri lögsögu verða óbreyttar. Hins vegar munu Íslendingar afsala sér 2.000 tonnum af Hjaltlandssíld sem Íslendingar hafa ekki nýtt sér um árabil þó hafi verið lengi ákvæði um í samningum.