Samingar  um yfirtöku Eignasafns Seðlabanka Íslands og Arion banka á eignum Dróma verða hugsanlega kláraðir fyrir áramót, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Viljayfirlýsing um yfirtökuna var undirrituð um miðjan júní.

Samkvæmt þeirri yfirlýsingu mun Arion banki taka yfir öll einstaklingslán en ESÍ mun taka yfir aðrar eignir Dróma. Í yfirlýsingunni kom fram að einnig færu fram viðræður um kaup Arion banka á einstaklingslánum Hildu ehf., dótturfélags ESÍ. „Það er góður gangur í þessu,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka“ í samtali við Viðskiptablaðið. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Í yfirlýsingunni frá því í júní kemur fram að markmið með viðræðum og samkomulagi væri það að koma einstaklingslánasöfnum Dróma hf. og Hildu ehf. í varanlegri búning til framtíðar litið og ljúka slitameðferð á SPRON og Frjálsa með samþykki kröfuhafa slitabúanna.