Samningar um flugrekstrarleyfi Avion Group í Þýskalandi eru á lokastigi. Slíkt leyfi styrkir starfsemi Charter & Leisure sviðs félagins, segir í fréttatilkynningu.

Þetta er í samræmi við stefnu félagins um að víkka út starfsemi Charter & Leisure utan Bretlands. Áætlað er að niðurstaða liggi fyrir í lok mars.

Starfsemi Charter & Leisure felst í leiguflugi, miðlun flugsæta og almennri ferðaþjónustu. Flugrekstrarleyfi í Þýskalandi eflir afkomusviðið með meiri umsvifum og fjölbreyttari nýtingu á flugflota samstæðunnar.

Áætlað er að minnsta kosti tvær nýlegar Airbus 320 vélar verði í rekstri í Þýskalandi næsta sumar og áætlað er að fjölga vélum umtalsvert á næstu árum. Flogið verður til áfangastaða í Suður og Austur Evrópu auk Mið-Austurlanda.

Til að flýta fyrir og auðvelda uppbyggingu á starfsemi í Þýskalandi hefur Avion Group náð samningum um kaup á hluta af eignum þrotabús þýska flugfélagsins, Aero Flight GmbH & Co. Luftverkehrs-KG. Kaupin eru háð því að öll tilskylin leyfi fáist sem eiga að liggja fyrir í lok mars. Kaupverðið er ekki gefið upp.

Avion Group áætlar að leggja 10 milljónir evra í uppbyggingu rekstursins í Þýskalandi á árinu 2006.

Uppbyggingin í Þýskalandi hefur ekki umtalsverð áhrif á rekstur samstæðunnar fyrst um sinn en áætluð veltuaukning vegna þeirra er í kringum 30 milljónir evra á yfirstandandi ári.

Ómar Benediktsson, fyrrverandi forstjóri Air Atlanta Icelandic, kemur til með að stýra uppbyggingu í Þýskalandi fyrst um sinn.