Samningar um kaup Landsnets hf. á flutningsvirkjum Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins voru undirritaðir í stjórnstöð Landsnets við Bústaðaveg í dag. Samtals greiðir Landsnet hf. um 26,8 milljarða króna fyrir flutningsvirkin í formi hlutabréfa og skuldabréfa.

Í frétt frá Landsneti kemur fram að Landsnet hf. er með einkaleyfi á raforkudreifingu á landinu og gegnir lykilhlutverki í þeirri markaðsvæðingu raforkumálanna sem stendur nú yfir. Á Landsvirkjun 69,44% hlut í Landsneti, RARIK á 24,15% hlut og Orkubú Vestfjarða á 6,41% hlut. Endurmetið stofnverð þess flutningskerfis sem hér um ræðir er um 66 milljarðar króna.

Hlutverk Landsnets er að annast flutning raforku og stjórnun raforkukerfisins og er frágangur eignaskiptanna í dag í takt við það samkomulag sem eigendur fyrirtækisins gerðu í júlí á þessu ári, þess efnis að Landsnet leigði flutningsvirkin fyrsta starfsár fyrirtækisins en fyrir árslok yrði gengið frá kaupum Landsnet á þeim og greitt fyrir með hlutabréfum í fyrirtækinu og útgáfu skuldabréfa.

Upphaflega stóð til að Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja yrðu einnig hluthafar í Landsneti en þau kusu hins vegar frekar að leigja Landsneti flutningskerfi sín í stað þess að leggja þau formlega inn í fyrirtækið, eins og Landsvirkjun, RARIK og Orkubú Vestfjarða hafa nú gert.

Landsnet hóf starfsemi 1. janúar 2005 og er starfsemi þess háð eftirliti Orkustofnunar, þar sem fyrirtækið starfar í sérleyfisumhverfi. Jafnframt er stjórn Landsnets skipuð fulltrúum sem eru óháðir eigendum fyrirtækisins til að tryggja sjálfstæði þess og hlutleysi gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, dreifingu eða sölu á raforku segir í frétt félagsins.

Strax við samþykkt nýrra raforkulaga árið 2003 hófst undirbúningur að opnun íslenska raforkumarkaðarins og hefur hún síðan verið að eiga sér stað í áföngum. Merk tímamót eru nú um áramótin þegar landsmenn geta valið sér raforkusala hvort sem er til atvinnurekstrar, heimilisnotkunar eða annarra hluta, óháð búsetu.

Landsnet annast rekstur á öllum meginflutningslínum rafmagns á Íslandi og allar dreifiveitur og stórnotendur á landinu eru tengdir við flutningskerfið. Til stofnlínukerfisins teljast öll flutningsvirki á spennu sem er 66 kV og hærri og nokkur flutningsvirki á 33 kV spennu tilheyra einnig flutningskerfi Landsnets.

Þá eru allar virkjanir, sem eru 7,0 MW og stærri, tengdar flutningskerfinu. Unnið er að margvíslegum nýframkvæmdum á vegum Landsnets í raforkuflutningskerfinu til að uppfylla samninga um aukna raforkuflutninga. Er fyrst og fremst um að ræða nýbyggingar sem tengjast annars vegar nýju álveri Fjarðaáls við Reyðarfjörð og hins vegar stækkun Norðuráls í Hvalfirði.