Ríkisendurskoðun telur að bæta þurfi skráningu og utanumhald samninga sem ráðuneyti og stofnanir gera við aðila utan ríkisins. Yfirlit um slíka samninga sem birt er í fjárlagafrumvarpi ár hvert sé ófullkomið. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um rekstrar-, þjónustu-, samstarfs- og styrktarsamninga sem ráðuneyti og stofnanir hafa gert við aðila utan ríkisins.

Um er að ræða samninga sem gilda til eins árs eða lengur og hljóða hver um sig upp á greiðslur sem nema þremur milljónum króna eða meira á ári. Tæplega 500 slíkir samningar voru virkir árið 2014. Áætlaður kostnaður þeirra nam samtals um 61 milljarði króna.

Ríkisendurskoðun telur að endurskoða þurfi þær reglur sem gilda um samningana og efla eftirlit með framkvæmd þeirra.