Framkvæmdir við nýja kísilverksmiðju hefjast á næstu mánuðum en orkusamningar eru á lokastigi. Nýtt bandarískt fyrirtæki er í samvinnu við Íslenska kísilfélagið sem hefur gengið frá öllum leyfum til að hefja rekstur. Því geta framkvæmdir hafist á næstu vikum eftir undirskrift orkusamnings og fjárfestingasamnings.

Þetta er fullyrt á vef Víkurfrétta .

Kemur fram að 150 manns muni fá starf við uppbyggingu og verða til um 90 framtíðarstörf við verksmiðjuna. Íslenska kísilfélagið hefur undirbúið verkefnið í 4 ár en verksmiðjan á að rísa í Helguvík.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er málið enn á viðkvæmu stigi og nokkuð í að viðræðum ljúki. Ekki fékkst gefið upp hver eða hverjir hinir nýir fjárfestar eru.

Haft er eftir Árna Sigfússyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, að þetta sé vonandi fyrsta af mörgum nýjum atvinnuverkefnum sem komist í gang.

Eigandi Íslenska kísilfélagsins er danska ráðgjafafyrirtækið Tomahawk Development. Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi fyrir félagið vegna kísilverksmiðju í Helguvík í september 2009. Þá var gert ráð fyrir að framkvæmdir hæfust fljótlega, tækju um 20 mánuði og stefnt var að því að hefja framleiðslu í nóvember 2011.

„Til stendur að framleiða í tveimur ofnum hrákísil alls 50 þús. tonn á ári. Kaupendur eru framleiðendur sólarrafhlaðna. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu mikilvægt þetta er fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum. Nýja verksmiðjan mun þurfa um 65 mw og fá hana frá Landsvirkjun og HS Orku en í framtíðinni muni Landsvirkjun taka yfir þann þátt þannig að HS Orka geti látið alla sína orku fara til álvers í Helguvík,“ segir á vef Víkurfrétta.