Að sögn Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Skjás 1, hefur rekstur félagsins það sem af er þessu ári verið í samræmi við áætlanir. Um síðustu áramót stefndi allt í að Skjár 1 færi úr loftinu en þá fór í gang mikil vinna að sögn Sigríðar við að semja við birgja og hagræða í rekstrinum. Sú vinna skilaði miklum árangri segir hún og í raun forsenda fyrir því að reksturinn gat haldið áfram.

,,Okkar fólk náði miklum árangri í að endursemja við okkar erlendu birgja en við urðum fyrir áfalli eins og mörg önnur verslunar- og þjónustufyrirtæki sem kaupa mikið af erlendum aðilum og greiða í gjaldeyri. Þegar það var allt komið saman og okkur sýndist allt stefna í það að stjórnmálamenn væru orðnir sammála um að takmarka ætti RÚV á auglýsingamarkaði þá ákváðum við að fara áfram inn í þetta ár og sjá hvernig hlutirnir myndu þróast. Við trúðum því að samkeppnisumhverfið yrði jafnað en það hefur ekki orðið.“

Skila ekki hagnaði í ár

Að sögn Sigríðar er félagið á áætlun eins og lagt var upp með hana í byrjun árs. Eins og mörg önnur íslensk fyrirtæki þurfi nánast að meta stöðuna upp á nýtt frá viku til viku. ,,Um leið þarf að finna ný tækifæri og fréttaútsendingar á Skjá 1 eru mikilvægar í því. Við gerum hins vegar ekki ráð fyrir að skila hagnaði í ár.“

Sigríður sagði að verulegur samdráttur hefði orðið í auglýsingasölu. Hve mikið það væri er misjafnt eftir mánuðum en þegar á heildina er litið væri samdrátturinn á milli 35 og 45%.  ,,Það er í raun hægt að horfa á auglýsingamarkaðinn fyrir og eftir bankahrun,“ sagði Sigríður Margrét.