Kaupþing og SPRON hafa ákveðið að framlengja samningaviðræður um sameiningu félaganna. Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar ganga viðræður vel og verður greint frá niðurstöðu þeirra eins skjótt og kostur er.

Þegar félögin hófu viðræður tilkynntu þau að þær myndu standa yfir í fjórar vikur. Sá tími rann út í vikunni og sendu félögin frá sér þessa tilkynningu í dag.

Sameining félaganna er háð samþykki hluthafafundar SPRON, stjórnar Kaupþings, Fjármálaeftirlitsins, Samkeppniseftirlitsins og lánveitenda félaganna.