Í september síðastliðnum var greint frá því að skipaður hafi verið starfshópur ráðherra til að móta samningsmarkmið Íslands í væntanlegum viðræðum um samkomulag um loftslagsmál eftir 2012. Á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins segir að samtökin vilja af þessu tilefni árétta að það er mjög mikilvægt að við stefnumörkun þessa og mótun samningsmarkmiða sé þess gætt að rekstrarskilyrði íslenskra fyrirtækja verði ekki skert og gerðar til þeirra ríkari kröfur en gilda munu í nálægum löndum. Sérstaklega á þetta við um útflutnings- og samkeppnisgreinar. Taka verður mið af því að fiskveiðar hér við land eru reknar með arðsemi að leiðarljósi og njóta ekki ríkisstyrkja eins og algengt er annars staðar. Samtökunum er ekki heldur kunnugt um að í nokkru landi séu lagðar takmarkanir á útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá áliðnaði umfram það að beita bestu fáanlegu tækni við framleiðslu sína á  svipaðan hátt og gert er hér á landi.

Atvinnugreinum verði sett ákveðin mörk

Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld styðji við þær hugmyndir og tillögur sem komið hafa fram í alþjóðaviðræðum um loftslagsmál að tilteknum atvinnugreinum (stálframleiðsla, sementsiðnaður, álframleiðsla) séu sett ákveðin mörk um útstreymi sem þeim beri að fara eftir hvar sem er í heiminum („Sectoral Approach”) svo að alþjóðlegt samkomulag verði ekki til þess að framleiðsla flytjist til þeirra landa þar sem litlar kröfur eru gerðar um takmörkun útstreymis.

Á það er minnt að þau rök sem lágu að baki samþykkt 14/CP.7 við Kyoto-bókunina eru enn í fullu gildi. Það er loftslagsvænt að nýtt sé endurnýjanleg orka við framleiðslu tiltekinna afurða í stað jarðefnaeldsneytis. Það er rökrétt að áfram verði til alþjóðlegur pottur útstreymisheimilda sem ríki geta sótt í uppfylli tiltekin verkefni þau skilyrði sem sett eru á svipaðan hátt og í ofangreindri samþykkt. Í því felast ekki undanþágur til einstakra ríkja heldur að ríki heims séu sammála um að beita þeim aðferðum sem tiltækar eru gegn loftslagsvandanum og að smæð einstakra hagkerfa sé ekki Þrándur í Götu á þeirri vegferð.

Tekið verði mið af sérstöðu Íslands

Ríkisstjórnin hefur mótað þá stefnu að dregið verði úr nettóútstreymi hér á landi um 50-75% til ársins 2050. Mikilvægt er að hafa í huga þegar sett eru markmið til skemmri tíma að samsetning útstreymis hér á landi er með allt öðrum hætti en í nálægum löndum þar sem stór hluti stafar af brennslu kola, olíu og jarðgass í orkuverum. Því er mikilvægt að fyrir liggi nákvæm úttekt á möguleikum atvinnulífs hér á landi til að draga útstreymi áður en sett verða tölusett markmið til skemmri tíma en ársins 2050.